Viðskipti erlent

Paris Hilton ætlar að bjarga heiminum úr kreppunni

Dekurdúllan Paris Hilton ætlar að leggja sitt af mörkum til að bjarga heiminum úr kreppunni. Hún segir að þetta muni hún gera með því að versla sem aldrei fyrr.

„Ég hjálpa efnahagnum með því að versla gífurlega," segir Paris í viðtali við breska tímaritið Tatler og bætir því við að mikil neysla hennar og peningaeyðsla muni hjálpa heiminum upp úr niðursveiflunni.

Paris nefnir sem dæmi að hún hafi nýlega fest kaup á demantskreyttum kjól frá Dolce og Gabbana og rósrauðum Bentley bíl sem er nokkuð sem hún telur að muni aðstoða við að koma efnahag heimsins á réttan kjöl.

„Bentleyinn er skreyttur Swarovski-kristöllum. Og liturinn er París-rauður nákvæmlega eins og auðkenni mitt," segir dúllan.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Paris Hilton ver kaupæði sitt með því að segja að slíkt bjargi heiminum. Hún lét svipuð orð falla í nýársferð sinni til Ástralíu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×