Viðskipti erlent

Kanadamenn vilja Opel og Vauxhall

Kanadíski bílavarahlutaframleiðandinn Magna hefur náð samkomulagi við bandaríska bílaframleiðandann General Motors um kaup á evrópuarmi fyrirtækisins eftir að ítalska Fiat bílaverksmiðjan hætti við tilboð sitt. Um er að ræða kaup á Opel bílaverksmiðjunum í Þýskalandi og Vauxhall í Bretlandi, en Saab í Svíþjóð, sem var í eigu General Motors er ekki hluti af kaupunum.

Samkomulagið við Magna er þó háð samþykki þýska ríkisins sem hefur heitið því að veita lán upp á einn komma fjóra milljarða evra til nýrra eigenda svo halda megi rekstri Opel áfram í Þýskalandi. Óvíst er þó hvort það lán fæst eftir að bandaríska fjármálaráðuneytið og General Motors vestanhafs tilkynntu þýskum yfirvöldum í gær að þörf væri á þrjú hundruð milljónum evra til viðbótar.

Angela Merkel, Þýskalandskanslari, og sveitastjórar í héruðum þar sem Opel verksmiðjur eru reknar funda um málið síðar í dag. Búist er við að General Motors í Bandaríkjunum lýsi sig gjaldþrota á mánudaginn. Svo gæti farið að þýsk yfirvöld ákveði að veita ekki lán til bjargar Opel en margir telja að það verði á endanum ódýrara fyrri þýska ríkið að leyfa evrópuarmi General Motors að fara á hausinn en að halda honum í rekstri.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×