Viðskipti erlent

Lloyds og RBS verða ekki seldir í bráð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stjórnendur eignarumsýslufélagsins sem fer með hlut breska ríkisins í Royal Bank of Scotland og Lloyds segir að hlutur hins opinbera í bankanum verði ekki seldur í bráð.

Í sunnudagsútgáfu breska blaðsins Telegraph segir að í aðgerðaráætlun eignarumsýslufélagsins (e. UK Financial Investments) komi fram að ekki verði hafist handa við sölu á hlutum í bönkunum tveimur fyrr en búið sé að endurvekja trú markaðarins á bankastarfsemi. Heimildir blaðsins herma að allt að sjö ár geti liðið þar til að búið verði að selja hlutina.

Beðið er samþykkis Alistairs Darlings, fjármálaráðherra Breta, fyrir aðgerðaráætluninni en í henni eru meðal annars tilgreindar leiðir sem hægt væri að fara við að selja hluti ríkisins í bankanum.

Fjárfestingafélagið fer með 70% hlut í Royal Bank of Scotland og 43% hlut í Llloyds og vonast er til þess að tugir milljarða sterlingspunda fáist fyrir hlutina þegar að sölu kemur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×