Viðskipti erlent

Samstarfsfélag Símans í Bretlandi skráð á markað

Daisy Communications, samstarfsfélag Símans í Bretlandi verður skráð á AIM markaðinn í London á næstunni, jafnvel strax í þessari viku. Talið er að skráningin skili 200 milljónum punda eða um 42 milljörðum kr. Daisy og Síminn reka í sameiningu félagið Daisy Mobile á breska fjarskiptamarkaðinum.

Í frétt um málið í breska blaðinu The Times segir að samhliða skráningunni sé Daisy að afla sér fjármagns til þess að kaupa eða yfirtaka önnur félög. Daisy hefur vaxið einna hraðast af félögum á breska fjarskiptamarkaðinum á undanförnum árum.

Matthew Riley forstjóri Daisy hlaut viðurkenningu sem viðskiptamaður ársins hjá Royal Bank of Scotland árið 2007 og hefur verið á miklu flugi síðan. Viðurkenningunni fylgdu fimm milljónir punda í vaxtalausu láni og ráðgjöf frá sir Philip Green. Talið er að Green hafi ráðlagt honum að setja Daisy á markaðinn núna.

Daisy á í viðræðum um samruna við Freedon4Group, áður þekkt sem Pipex, og Vialtus fyrrum fyrirtækjaþjónustu Pipex á fjarskiptasviðinu. Gangi þetta eftir fyrir skráninguna mun Riley eignast 25% hlut í hinu sameinaða félagi og fær um 30 milljónir punda í reiðufé í sinn hlut. Áætlað er að velta hins sameinaða félags nemi 100 milljónum punda á ári.

Síminn sameinaði félag sitt í Bretlandi, Aerofone UK, við breska félagið og myndað nýtt félag undir heitinu Daisy Mobile í síðasta mánuði. Um var að ræða fyrsta samninginn sem Daisy gerði á þessu fjárhagsári.

Samningurinn gerir Daisy kleyft að auka við umfangið á fastlínukerfi sínu með því að fá inn sérhæfða farsímaþjónustu fyrir smærri til meðalstór fyrirtæki í Bretlandi.

Matthew Riley forstjóri Daisy var ánægður með sameiningu félaganna. Verkefnið væri árangur af leit Daisy að farsímaþjónustu sem staðið hafi í nokkurn tíma. „Við erum hæstánægðir með að tækifærið með Aerofone kom upp," sagði Riley í tilkynningu um málið. „Aerofone er augljóslega þekkt merki á farsímasviðinu."

Riley var áður sölumaður hjá Deutche Telekom en hann stofnaði Daisy árið 2001 í Leeds og var þá með þrjá starfsmenn. Nú ætlar hann að berjast við BT á breska markaðinum en BT ræður 60% af honum. „Við ætlum að vera Davíð á móti þeirra Golíat," segir Riley.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×