Viðskipti erlent

Svínaflensan gæti minnkað hagvöxt heimsins um 5%

Alþjóðabankinn telur að svínaflensan gæti minnkað hagvöxt (landsframleiðslu) heimsins um 5% ef hún verður að heimsfaraldri.

Til samanburðar má geta þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að hagvöxtur heimsins muni minnka um 1,3% í ár af völdum fjármálakreppunnar.

„Flensufaraldur er það síðasta sem efnahagur heimsins þarf á að halda," segir Bill O' Grady yfirmaður nýmarkaðadeildar Confluence Investment Management í St. Louis í samtali við Bloomberg-fréttaveituna. „Þetta er sennilega ekki stórmál en það er alltaf möguleiki á slíku og enginn vill taka áhættu."

Í umfjöllun um málið á vefsíðunni e24.no segir að 5% samdráttur á hagvexti á heimsvísu muni slá út af borðinu allar vonir um viðsnúning í kreppunni á þessu ári.

Alþjóðabankinn hefur þegar brugðist við vandanum með því að veita 200 milljón dollara aukalán til að berjast gegn útbreiðslu svínaflensunnar.

Áhrifa óttans gætir nú víða á mörkuðum heimsins og hafa bæði hrávörur eins og olía og hlutabréf fallið í verði undanfarna tvo daga.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×