Viðskipti erlent

Veiking pundsins þýðir óhreinna kókaín

Hreinleiki kókaíns á fíkniefnamarkaðinum í London er í beinu sambandi við gengi pundsins að því er segir í umfjöllun um málið á Bloomberg-fréttaveitunni.

Bloomberg birtir daglega það sem kallast „línurit" dagsins þar sem sýnt er samhengi milli ýmissa efnahagslegra þátta og stærða. Í dag er línuritið nokkuð óvenjulegt því það sýnir sambandið á milli hreinleika kókaíns og gengi pundsins.

Fram kemur að á síðustu 12 mánuðum hefur hreinleiki kókaínsins minnkað úr 32% og niður í 22% í London. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem tæknifyrirtækið Forensic Science Service framkvæmdi.

Axel Klein sérfræðingur í misnotkun eiturlyfja hjá háskólanum í Kent segir að þetta megi rekja til veikingar pundsins á sama tímabili. En einnig megi nefna harðari aðgerðir lögreglu gegn þeim sem standa að baki götusölunni á kókaíni í Bretlandi.

„Heildsalarnir verða nú að borga hærra verð fyrir vöruna og til að halda götuverðinu stöðugu verða þeir að minnka hreinleikann," er haft eftir sérfræðingi í rannsóknum á alvarlegri skipulagðri glæpastarfsemi í Bretlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×