Viðskipti erlent

Nær 140.000 danskar fjölskyldur eru tæknilega gjaldþrota

Sökum þess hve fasteignaverð hefur lækkað mikið eru nær 140.000 danskar fjölskyldur nú tæknilega gjaldþrota. Þetta kemur fram á vefsíðunni dinepenge.dk. Þessar fjölskyldur eiga það sameiginlegt að hafa fjárfest í nýjum íbúðum/húsum þegar fasteignaverðið náði hámarki í Danmörku árin 2006 og 2007.

Umfjöllun vefsíðunnar byggir á útreikningum sem greiningardeild Sydbank gerði fyrir viðskiptasíðu Berlinske Tidende. Yfirmaður greiningardeildarinnar, Christian Hilligsöe segir að það hafi orðið mikil fjölgun í þessum hópi frá áramótum.

„Á fyrsta ársfjórðungi ársins hafa um 40.000 fjölskyldur orðið gjaldþrota," segir Hillingsöe. „Það er þær geta ekki lengur selt húsnæði sitt á því verði sem það var keypt á. Þetta er mesti fjöldi sem sést hefur um áratugaskeið."

Hvað einstaka landshluta Danmerkur varðar er vandamálið stærst á höfuðborgarsvæðinu en um 30.000 af fyrrgreindum fjölskyldum búa í Kaupmannahöfn. Ástandið er mun betra á landsbyggðinni. Nefnt er að sárafáar af þessum fjölskyldum búa á Norður-, Suður-, og Vestur-Jótlandi.

Fram kemur í umfjöllun dinepenge.dk að stór hluti af framangreindri heild hafi keypt húsnæði á verði sem er 25% yfir núverandi markaðsverði þess.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×