Viðskipti erlent

Danskt félag Björgólfs Thors í miklum vandræðum

Eignarhaldsfélagið SG Nord Holding sem er að hálfu í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar er í miklum vandræðum að því er segir í viðskiptablaðinu Börsen. Helsta eign SG Nord Holding er 30% hlutur í fasteignafélaginu Sjælsö Gruppen.

Vegna fréttarinnar í Börsen féllu hlutabréf í Sjælsö Gruppen um 11% á markaðinum í Kaupmannahöfn í morgun en hafa náð sér á strik og undir hádegið var lækkunin komin niður í 2,4%.

Samkvæmt umfjöllun Börsen eru það aðeins liðlegheit í viðskiptabönkum SG Nord Holding sem halda félaginu á floti í augnablikinu. Bankar þessir eru Straumur auk dönsku bankanna HSH Nord Bank og Aareal Bank.

„Bæði Sjælsö Gruppen og SG Nord Holding eru í fjárhagsvandræðum. SG Nord Holding er í vandræðum með lán upp á 500 milljónir kr. (12 milljarða íslenskra kr.) sem greiða þarf vexti af," segir forstöðumaður greiningardeildar Nordea Markets, Michael West Hybolt, í samtali við Börsen. „Hingað til hafa vaxtagreiðslurnar upp á 25-35 milljónir kr. (600 til 840 milljónir íslenskra kr.) á ári verið greiddar með fjármagni frá Sjælsö Gruppen en nú er það ekki hægt lengur."

Fjármagnsþörf SG Nord Holding er 100-220 milljónir danskra kr. í nýju lausafé í ár og á næsta ári.

Björgólfur Thor á SG Nord Holding á móti bræðurnum Ib og Torben Rönje. Torben segir að ekki séu uppi áætlanir uim að selja af hlutnum í Sjælsö Gruppen til að útvega nýtt lausafé.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×