Fótbolti

Leikmenn Real hafa ekki kynnst andrúmsloftinu á Anfield

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stemmningin á Evrópukvöldi á Anfield er engu lík.
Stemmningin á Evrópukvöldi á Anfield er engu lík. Mynd/Getty

Margra augu verða á Anfield í Liverpool í kvöld þegar spænsku meistararnir í Real Madrid mæta þangað í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Liverpool vann fyrri leikinn 1-0 í Madríd og er því í frábærri stöðu.

Liverpool hefur ekki aðeins forskot inn á vellinum því þeir segja það sem þekkja vel til að Evrópukvöld á Anfield séu engu lík. Leikmenn Real Madrid eru vanir að spila fyrir tugi þúsunda áhorfenda í hverri viku en þeir eiga enn eftir að kynnast því að spila fyrir framan Kop-stúkuna á Anfield.

„Madrídarliðið hefur ekki spilað áður á Anfield og þeir verða ekki tilbúnir fyrir hið einstaka andrúmsloft á vellinum," segir Ian Rush, fyrrum leikmaður Liverpool.

„Þeir munu segjast vera tilbúnir en sjáið bara lið Juventus árið 2005. Þeir töluðu líka um að þeir væru tilbúnir en voru búnir að missa leikinn frá sér í fyrri hálfleik. Sama ár var Chelsea líka lent 0-1 undir áður en þeir vissu af því," segir Rush sem ætti að þekkja vel til eftir að hafa verið leikmaður félagsins til fjölda ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×