Viðskipti erlent

Illum hættir sölu á lúxusúrum og skartgripum

Stórverslunin Illum í Kaupmannahöfn, sem nú er í eigu Straums, hefur ákveðið að hætta sölu á lúxusúrum og skartgripum í versluninni. Kúnnarnir voru orðnir of fáir og veltan of lítil.

Í frétt um málið á business.dk segir að fjármálakreppan marki nú í fyrsta sinn djúp spor á því svæði í Kaupmannahöfn þar sem flestar lúxusbúðir borgarinnar standa, eða í kringum Kongens Nytorv þar sem Magasin du Nord er raunar einnig til húsa.

Illum rak í samstarfi við Bvlgari stóra úra- og skartgripaverslun á jarðhæð sinni. Bvlgari setti þessa verslun upp fyrir tæpum tveimur árum og var markmiðið að markaðssetja Illum sem staðinn þar sem helstu lúxusvörur heimsins væri að finna.

Jeanette Ruby markaðsstjóri Illum segir í samtali við business.dk að staðsetning Bvlgari búðarinnar hafi reynst erfið og að stórverslunin sé nú að ræða við aðra aðila um að koma inn á minna plássi en Bvlgari hafði. Á þessu plássi voru auk, Bvlgari, seld merki á borð við Omega, Gucci og Breitling.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×