Viðskipti innlent

Enn hækkar DeCode

Kári Stefánsson, forstjóri DeCode.
Kári Stefánsson, forstjóri DeCode. Mynd/GVA
Gengi hlutabréfa í DeCode hækkaði um tæp 25 prósent í fyrstu viðskiptum dagsins á Nasdaq-markaðnum í Bandaríkjunum í dag. Það gaf lítillega eftir en hefur engu að síður hækkað um tæp 18 prósent það sem af er dags. Þetta er í engu samræmi við þróunina á hlutabréfamarkaði vestanhafs í dag. Dow Jones-hlutabréfavísitalan hefur lækkað um 1,17 prósent og Nasdaq-vísitalan um 1,19 prósent. Gengi bréfa í DeCode féll um fimmtíu prósent í síðustu viku, endaði í 40 sentum á hlut á fimmtudag og hafði aldrei verið lægra. Rætt var um það þá að gengið mætti ekki vera undir einum dal og teljast til aurabréfa (e. penny-stocks) lengur en í 30 daga. Gerðist það hafa fyrirtæki sem fall í þann flokk 180 dala til að koma bréfunum upp fyrir dalinn. Takist það ekki gætu þau átt hættu á að verða afskráð. Gengi bréfa í DeCode fór undir einn dal á hlut 10. júní í sumar og maraði þar til 2. júlí. Gengið fór lægst í 83 sent á hlut en flaug hæst í 1,7 dali á hlut. Nokkrum dögum síðar tók það að gefa eftir á ný. Breytingin nam þessu samkvæmt 104 prósentum í uppsveiflunni á þremur vikum. Síðan þá féll það í 40 sent eins og fyrr sagði. Fallið nemur 76,5 prósentum á tæpum þremur mánuðum. Gengið stendur nú í 53 sentum á hlut, hefur hækkað um 32 prósent síðan á fimmudag, og þarf því að hækka um tæp 89 prósent til viðbótar til að snerta dalinn á ný.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×