Erlent

Örninn Zorro til varnar einu af kennileitum Melbourne

Starfsmenn Arts Centre, sem er eitt af kennileitum borgarinnar Melbourne í Ástralíu, hafa fengið örninn Zorro til liðs við sig til að verja kennileitið fyrir ágangi kakadú fugla.

Kennileitið skartar 163 metra háum turni sem er alsettur smáum ljósum sem lýsa hann upp að næturlagi. Þessi ljós gátu kakadú fuglarnir ekki séð í friði og gogguðu þau úr festingum sínum. Nú þegar er tjónið af þessum völdum orðið um 5 milljónir kr.

Örninn Zorro var því fenginn til að halda kakadú fuglunum í skefjum og stendur hann vörð um turninn ásamt fálka einum er ber nafnið Bibi.

Að sögn forsvarsmanna Arts Centre virkar þetta fyrirkomulag mjög vel og engin ljós hafa skemmst síðan Zorro kom til sögunnar. Hinsvegar hefur annað vandamál dúkkað upp og það er mikill fjöldi ferðamanna sem fylgist með Zorro og truflar umferðina til og frá Arts Centre.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×