Formúla 1

Hamilton tryggði sér titilinn á síðustu metrunum

Hamilton fagnaði vel í dag
Hamilton fagnaði vel í dag AFP

Lewis Hamilton hjá McLaren varð í dag yngsti ökumaðurinn til að verða heimsmeistari í Formúlu 1 þegar hann náði fimmta sætinu í Brasilíukappakstrinum. Heimamaðurinn Felipe Massa kom fyrstur í mark, en það nægði honum ekki til sigurs í stigakeppninni.

Lokaspretturinn í keppninni í dag var ótrúlegur og réðust úrslitin á síðustu metrunum þegar Lewis Hamilton skreið fram úr Timo Glock á Toyota sem hægði mjög á sér í blálokin og tryggði sér fimmta sætið sem nægði honum til sigurs.

Bæði áhorfendur og keppnisliðin héldu að Massa væri búinn að tryggja sér titilinn, því sjónvarpsvélarnar misstu af framúrakstri Hamilton í lokin.

Flest benti til þess að Hamilton hefði klúðrað titlinum á lokasprettinum líkt og í fyrra, því þegar tveir hringir voru eftir missti hann Sebastian Vettel fram úr sér.

Hamilton er aðeins 23 ára gamall og er fyrsti breski ökumaðurinn til að vinna titilinn síðan Damon Hill erði það árið 1996.

"Þetta var mest spennandi kappakstur sem ég hef á ævi minni séð," sagði Damon Hill í samtali við BBC eftir keppnina.

Lið Ferrari var byrjað að fagna ákaft, en eftir að úrslitin lágu fyrir mátti sjá tár renna niður vanga liðsmanna - ekki síst Felipe Massa sem vann súrsætan sigur í heimalandi sínu.

Ferrari-menn geta þó huggað sig við það að liðið vann sigur í keppni bílasmiða þetta árið.

Úrslitin í dag:

1. Massa - Ferrari

2. Alonso - Renault

3. Raikkönen - Ferrari

4. Vettel - Toro Rosso

5. Hamilton - McLaren

6. Glock - Toyota

7. Kovalainen - McLaren

8. Trulli - Toyota

Efstu menn í stigakeppni ökumanna í ár:

1 Lewis Hamilton 98 stig

2 Felipe Massa     97

3 Kimi Raikkonen 75

4 Robert Kubica 75

5 Fernando Alonso 61

6 Nick Heidfeld 60

Keppni bílasmiða:

1 Ferrari 172 stig

2 McLaren  151

3 BMW Sauber 135 

 
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×