Viðskipti innlent

Gengi Eik bank féll um 14,5 prósent

Marners Jacobsen,forstjóri Eik Banka og Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar íslensku, er þeir handsöluðu skráningu Eik Banka á hlutabréfamarkað hér í júlí.
Marners Jacobsen,forstjóri Eik Banka og Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar íslensku, er þeir handsöluðu skráningu Eik Banka á hlutabréfamarkað hér í júlí.

Gengi hlutabréfa í færeyska bankanum Eik bank féll um 14,55 prósent skömmu eftir að viðskipti hófust í Kauphöll Íslands í dag í kjölfar  þess að Föroya Sparikassi seldi þúsund hluti í bankanum. Eik banki er bæði skráður hér á landi og í Danmörku.

Samkvæmt upplýsingum frá bankanum var um villu að ræða í skráningu viðskipta með bréf í félaginu.

Einungis þrjú viðskipti stóðu að baki hreyfingu á gengi Eik banka fyrir 56 milljónir danskra króna, rúmar 6,5 milljónir íslenskra króna.

Bankinn var skráður í Kauphöllina hér um miðjan júlí og var útboðsgengi hans 575 danskar krónur á hlut. Gengi bréfa í bankanum stendur hins vegar nú í 664 krónum á hlut.

Gengið jafnaði sig skömmu síðar, hækkaði um 0,61 prósent og stendur í 664 dönskum krónum á hlut.

Að öðru leyti hefur lítil hreyfing verið á gengi hlutabréfa í Kauphöllinni, fimm hafa lækkað en einungis tvö hækkað. Þau eru Össur, sem hefur hækkað um 0,95 prósent, og Landsbankinn, sem hefur hækkað um 0,34 prósent.

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,06 prósent og stendur hún í 8.442 stigum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×