Viðskipti innlent

Hluthafar Storebrand sagðir styðja kaup á SPP

Höfuðstöðvar Storebrand í Ósló í Noregi.
Höfuðstöðvar Storebrand í Ósló í Noregi.

Fulltrúar hluthafa í norska tryggingafyrirtækinu Storebrand eru sagðir styðja  kaup félagsins á sænska tryggingafélagið SPP, líftryggingahluta Handelsbanken. Skrifað var undir yfirlýsingu um kaupin í byrjun mánaðar. Líklegt þykir að Kaupþing, sem er stærsti hluthafi Storebrand, sé fylgjandi kaupunum.

Kaupverð nemur fimmtán milljörðum sænskra króna, jafnvirði um 168 milljörðum íslenskra króna.

Þegar skrifað var undir samkomulag um kaupin af Handelsbanken í byrjun mánaðar sögðu greinendur í samtali við Reuters að verðmiðinn væri heldur hár. Á móti myndi Storerbrand tryggja sér ráðandi stöðu á norrænum tryggingamarkaði, að þeirra mati.

Kaupin verða tekin fyrir á hluthafafundi Storebrand í október en reiknað er með að samþættingu ljúki á næsta ári.

Kaupþing, sem er stærsti hluthafinn í Storebrand með tuttugu prósent hlutafjár, og Exista eiga saman rúman fjórðungshlut í tryggingafélaginu norska. Haft var eftir Jónasi Sigurgeirssyni, forstöðumanns upplýsingasviðs Kaupþings, eftir að samkomulagið var undirritað að bankinn hefði ekki myndað sér skoðun um þau en slíkt þyrfti hann ekki að gera fyrr en á hluthafafundi Storebrand í næsta mánuði. Hann útilokaði hins vegar ekki að það gæti orðið fyrr.

Fréttaveitan Thomson Financials segir nú, að meirihluti greinenda teldi litlar líkur á að Kaupþing muni setja sig upp á móti kaupunum á SPP






Fleiri fréttir

Sjá meira


×