Viðskipti innlent

Þröng á þingi hjá Marel Food Systems

Stjórnendur fyrirtækisins í höfuðstöðvum Marel Food Systems.
Stjórnendur fyrirtækisins í höfuðstöðvum Marel Food Systems.

Þröng mun vera á þingi í höfuðstöðvum Marel Food Systems í Garðabænum þessa dagana en þar stendur nú yfir þriggja daga stjórnendafundur samsteypunnar. Þar koma saman allir forstjórar og framkvæmdastjórar, sölustjórar, þjónustustjórar og fjármálastjórar allra dótturfélaga. Alls eru þetta um 150 stjórnendur frá 25 löndum.

Þetta er í fyrsta sinn sem svo umsvifamikill stjórnendafundur er haldinn innan Marel Food Systems samstæðunnar, að því er fram kemur í tilkynningu. Fundurinn er hluti af samþættingarferli þar sem strengir einstakra fyrirtækja samstæðunnar eru stilltir, markmið skilgreind og framtíðarstefna mótuð.

Meðal þeirra sem taka þátt í stjórnendafundunum er Philippe Haspeslagh, prófessor við hinn virta INSEAD-háskóla í Frakklandi. Haspeslagh er heimsþekktur sérfræðingur í fyrirtækjasamrunum og skrifaði m.a. bókina Managing Aquisitions sem fjallar um þessi málefni. Hann hefur verið ráðgjafi Marel Food Systems við samruna síðustu ára og er einn framsögumanna á stjórnendafundi fyrirtækisins nú, að því er segir í tilkynninguni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×