Hagnaður fasteignafélagsins Stoða, sem á og leigir út fasteignir hér á landi og í Danmörku, nam 4.336 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 4.186 milljónir króna á sama tíma í fyrra.
Í uppgjörinu kemur fram að rekstrartekjur hafi numið 4.162 milljónum samanborið við 2.778 milljónir árið á undan.
Heildareignir í lok tímabilsins námu rétt rúmum 170,3 milljörðum króna samanborið við 156,6 milljarða í lok síðasta árs.
Eigið fé nam tæpum 34,1 milljarði króna sem er 11,3 milljörðum meira en það var í lok síðasta árs. Þá var eiginfjárhlutfall var 20 prósent, samkvæmt uppgjöri Stoða.
Á tímabilinu gerði fasteignafélagið samkomulag um kaup á fasteignafélaginu Landsafli auk þess að selja félagið S-fasteignir ehf til Eignarhaldsfélagsins Fons. Helsta eign S-fasteigna er olíufélagið Skeljungur.
Þá gaf það út nýtt hlutafé upp á 522 milljónir króna.
Stoðir gerði yfirtökutilboð í danska fasteignafélagið Keops upp á 51 milljarð íslenskra króna í júní. Stjórn Keops hefur þegar mælt fyrir tilboðinu. Það rennur út á morgun en niðurstöður verða ekki kynntar fyrr en 3. september næstkomandi, að því er segir í uppgjörinu. Haft hefur verið eftir Skarphéðni Berg Steinarssyni, forstjóra Stoða, að gangi það eftir verði Stoðir í hópi stærstu fasteignafélaga Norðurlanda.
Á meðal leigjenda að fasteignum Stoða eru Hagar, Magasin du Nord, Illum, Icelandair Hotels, Kaupþing og dönsku bankarnir Gudme Raaschou Bank og Danske Bank. Leigunýting fasteigna í eigu Stoða nemur 97 prósentum, að því er fram kemur í uppgjörinu.