Viðskipti innlent

Úrvalsvísitalan enn á uppleið

Frá ársfundi Exista í mars. Gengi bréfa í fyrirtækinu hefur hækkað nokkuð síðustu daga.
Frá ársfundi Exista í mars. Gengi bréfa í fyrirtækinu hefur hækkað nokkuð síðustu daga. Mynd/Valli

Gengi hlutabréfa hækkaði talsvert í Kauphöllinni í dag. Exista leiddi hækkanir dagsins en gengi bréfa í fjármálafyrirtækjum fylgdi fast á eftir. Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,17 prósent í dag og stendur í 8.309 stigum. Vísitalan hefur hækkað um 29,6 prósent frá áramótum.

Gengi bréfa í Exista hækkaði um 4,46 prósent í dag, í Century Aluminum um 4,16 prósent og í FL Group um 2,98 prósent.

Gengi bréfa í fjármálafyrirtækjum féll hratt í niðursveiflu á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum fyrir hálfum mánuði. Frá því á föstudag hefur gengi þeirra hins vegar verið að snúast við.

Úrvalsvísitalan fór í methæðir 18. júlí síðastliðinn, eða 9.016 stig. Hún dalaði dalaði hratt upp frá því og fór lægst í 7.572 stig 16. ágúst síðastliðinn.

Gengi krónunnar hefur sveiflast talsvert samfara hræringum á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum. Gengi hennar hækkaði um 1,7 prósent í dag og stendur gengisvísitalan í 120 stigum. Þetta er fjórði dagurinn í röð sem gengi krónu hækkar.

Í Morgunkorni Glitnis í dag er bent á hversu miklar sveiflurnar hafi verið og tæpt á því að gengi krónu gagnvart evru hafi sveiflast frá því að vera 82 krónur í 93 krónur og svo aftur í 88 krónur á einum mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×