Viðskipti innlent

Mikil lækkun í Kauphöllinni

Lýður og Ágúst Guðmundssyni, kenndir við Bakkavör og stærstu hluthafar í Exista. Gengi bréfa í félaginu féll um 8,16 prósent við opnun viðskipta í Kauphöllinni í morgun.
Lýður og Ágúst Guðmundssyni, kenndir við Bakkavör og stærstu hluthafar í Exista. Gengi bréfa í félaginu féll um 8,16 prósent við opnun viðskipta í Kauphöllinni í morgun. Mynd/Haraldur Jónasson

Úrvalsvísitalan féll um 4,22 prósent strax við opnun viðskipta í Kauphöllinni í dag og stóð vísitalan í 7.542 stigum. Exista leiddi lækkunina en gengi bréfa í félaginu fór niður um 8,16 prósent. Gengi bréfa í FL Group féll um 6,28 prósent og Straums-Burðaráss um 5,16 prósent.

Öll félög í Úrvalsvísitölunni hafa ýmist lækkað eða staðið í stað.

Niðursveiflan hér er svipuð og á Norðurlöndunum en C20 vísitalan í kauphöllinni í Kaupmannahöfn hefur lækkað um tæp fjögur prósent, þýska Dax-vísitalan hefur farið niður um 2,3 prósent, hin breska FTSE um 2,6 prósent. Þá hefur vísitalan í kauphöllinni í Osló í Noregi lækkað um 3,4 prósent og vísitalan í Stokkhólmi hefur fallið um rétt rúm þrjú prósent.

Nasdaq-vísitalan lækkaði um rétt tæp tvö prósent á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum í gær vegna samdráttar á bandarískum fasteignalánamarkaði samhliða minni væntingum um afkomu fyrirtækja en búist er við að einkaneysla muni dragast saman á næstunni. Með lækkuninni í gær þurrkaðist út öll hækkun bandarísku vísitölunnar á árinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×