Viðskipti innlent

Fjárfestar halda að sér höndum

Úrvalsvísitalan hefur verið á hraðri niðurleið það sem af er degi og hefur ekki verið lægri síðan um miðjan maí. Vísitalan hafði lækkað um 3,33 prósent í dag og stendur vísitalan í 8.004 stigum. Krónan hefur veikst um tæp tvö prósent í dag og stóð í 121,9 stigum um hádegi.

Arnar Freyr Ólafsson, sérfræðingur hjá Glitni, segir lækkun á íslenskum hlutabréfamarkaði í takti við hræringar á erlendum hlutabréfamörkuðum, að talið sé vegna vandræða á bandarískum fasteignalánamarkaði. Í lækkun á verði hlutabréfa draga fjármálafyrirtækin vagninn en fjárfestingafélögin fylgja fast á eftir.

Arnar segir stefnu fjárfestingafélaga hins vegar mismunandi og því skýri alþjóðlegu hræringarnar ekki alla lækkunina. Þannig hafi hlutur finnska fjármála- og tryggingafyrirtækisins Sampo áhrif á gengi bréfa í Exista. Því sé ekki að skipta með gengi bréfa í Atorku, sem fjárfestir að mjög takmörkuðu leyti í fjármálafyrirtækjum. Bréf Exista hafa lækkað um 5,35 prósent í rétt um hundrað viðskiptum það sem af er dags og bréf í Atorku um rúm þrjú prósent í aðeins 19 viðskiptum um hádegisbil.

Arnar segir kauphliðina skipta máli í þessu sambandi og greinilegt að fjárfestar halda að sér höndum á hlutabréfamarkaði þessa dagana.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×