Erlent

Óhollara lungum að reykja kannabis en tóbak

Það er jafn óhollt að reykja eina kannabissjónu og fimm sígarettur. Þetta er niðurstaða vísindamanna á Nýja-Sjálandi sem skoðuðu 339 reykingamenn beggja efna.

Samkvæmt rannsókninni hefur kannabisreykur mun víðtækari og meira eyðileggjandi áhrif á lungun. Nánar til tekið orsakar tóbaksreykur svokallað lungnaþan, sem veldur staðbundinni veilu í lungum, en kannabisreykur sljóvgar alla starfsemi lungnanna. Því eru kannabisneytendur mun líklegri til að þjást af öndunarerfiðleikum, hósta og eymslum í brjósti, samkvæmt rannsókninni.

Af þeim reykingamönnum sem skoðaðir voru reykti einn hópur einungis sígarettur, í öðrum hópnum var bara reykt kannabis og þriðji hópurinn reykti bæði. Þá voru reyklausir hafðir til viðmiðunar.

Þetta kemur fram á vef Reuters.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×