Erlent

Undirbúningur hafinn fyrir geimskot Endeavour

Áhöfn Endeavour
Áhöfn Endeavour MYND/Nasa

Sjö manna áhöfn Endeavour geimskutlunnar frá Nasa er komin til Flórída þar sem lokaundirbúningur fyrir flugtak skutlunnar hefst. Flugtakið er sett þann 7da ágúst frá Canaveral höfða í Flórída. Áfangastaðurinn er Alþjóðageimstöðin þar sem byggingu stöðvarinnar verður haldið áfram.

Eins og gefur að skilja er að mörgu að hyggja þegar geimferð er skipulögð. Áhöfnin mun klæða sig upp í geimgalla og ganga um borð í Endeavour þar sem æfð verða öll grundvallaratriði flugtaksins. Þá verður farið yfir öll möguleg neyðarúrræði ef eitthvað fer úrskeiðis við flugtakið, til dæmis ef eldur kviknar. Þá læra geimfararnir að stýra M113 skriðdreka. Einn slíkur verður staðsettur við skotpallinn og er honum ætlað að flytja áhafnarmeðlimi í skjól ef hætta skapast við flugtak. Stýrimennirnir Scott Kelly og Charlie Hobaugh munu halda áfram ströngum flug-, og lendingaræfingum í hermum.

Áætlað er að Endeavour eyði 11 dögum við Alþjóðageimstöðina, þó er gert ráð fyrir að heimferðin dragist um þrjá daga. Skutlan er búin tækjum sem gera henni kleift að nýta rafmagn úr stöðinni. Ráðgerðar er þrjár geimgöngur utan á stöðinni.

Þetta er fyrsta geimferð Endeavour síðan árið 2002. Þetta er tuttugasta og önnur ferð geimferju til Alþjóðageimstöðvarinnar. Stefnt er að því að stöðin verði tilbúin árið 2010.

Endeavour
.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×