Erlent

Á fleygiferð um Norðurhöf

Oddur S. Báruson skrifar

Stærsta endurgerð víkingaskips sem smíðuð hefur verið liggur nú við landfestar í Kirkwall, höfuðstað Orkneyja. Á næstu dögum heldur fleyið úr höfn og siglir suður til Skotlands. Erindi áhafnarmeðlima er ekki að höggva mann og annan í þetta skipti heldur er um að um ræða hóp skandínavísks ævintýrafólks sem hefur það að markmiði að skemmta sér og lifa sig inní veröld forfeðra sinna.

Siglingin hófst í Danmörku og reiknað er með að hún taki alls sjö vikur. Síðasta áætlunarhöfn er á Írland. Verða þá allt í allt einar þúsund sjómílur að baki.

 

Teymi frá fréttastofu BBC hefur fylgst með ferðum víkinganna og vinnur að heimildarmynd um þessa hressilegu tímaskekkju.

Áhafnarmeðlimir hafa ekki allir komist klakklaust gegnum siglinguna um Norðursjó. Vond veður hafa hrjáð hópinn og nokkrir hafa þurft að yfirgefa samkvæmið vegna ofkælingar. Þrátt fyrir það segir Louise Henriksen, einn áhafnarmeðlima, að rífandi stemming sé um borð.

„Förin hefur verið strembin til þessa en við erum upplitsdjörf og hlökkum til að koma til Skotlands." Segir Henriksen.

Mikið hvassviðri hefur dunið á norðanverðum Bretlandseyjum undanfarið. Veðurspár benda til að sterkur mótvindur mæti fleyinu er það siglir suður á boginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×