Ron Dennis, liðsstjóri McLaren liðsins í Formúlu 1, segir að enska ungstirnið Lewis Hamilton þurfi sérstaka vernd frá ágangi fjölmiðla eftir að honum skaut óvænt upp á stjörnuhimininn. Dennis segist reikna með því að hinn 22 ára gamli Hamilton þurfi að flytja búferlum í kjölfar velgengni sinnar.
"Ef fjölmiðlar halda áfram að brjóta friðhelgi einkalífs hans eins og verið hefur, verður hann að finna sér annan samastað," sagði Dennis í dag, en margir af ökuþórunum í Formúlu 1 hafa kosið að flytja til Sviss og Mónakó til að verjast ágangi fjölmiðla. "Þessi ágangur mun hafa mikil áhrif á hann ef við skerumst ekki í leikinn og við verðum að forðast þetta í lengstu lög," sagði Dennis.
Hamilton hefur komist á verðlaunapall í fyrstu sjö keppnum sínum á ferlinum og hefur nú unnið þær tvær síðustu. Þetta er langbesta byrjun nýliða í Formúlu 1 og hefur velgengnin þýtt það að þessi ungi maður getur nú hvergi farið án þess að vera þekktur og ljósmyndarar vakta hús hans norðan við London allan sólarhringinn.