Viðskipti innlent

Síminn kynnir þriðju kynslóðina

Farsími af þriðju kynslóð farsímakerfa sem Síminn kynnti blaðamönnum í dag.
Farsími af þriðju kynslóð farsímakerfa sem Síminn kynnti blaðamönnum í dag. Mynd/Anton

Síminn kynnir í verslunum sínum á morgun nýjungar í farsímaþjónustu, sem grundvallast á þriðju kynslóð farsímakerfa (3G). Gestum gefst kostur á að kynna sér þá byltingu sem í vændum er þegar þriðja kynslóð farsímakerfa verður tekin í notkun í fyrsta sinn á Íslandi í haust.

Í tilkynningu frá Símanum kemur fram að á meðal helstu nýjunganna í þriðju kynslóð farsímakerfa eru myndsímtöl, þar sem viðmælendum gefst kostur á að sjá hvor annan meðan á samtali stendur og móttaka sjónvarps í farsíma í meiri gæðum en áður hefur þekkst í farsímum. Jafnframt aukast möguleikar á nettengingu fartölva til muna, því með sérstöku gagnakorti fæst nettenging sem samsvarar hraða ADSL-tenginga á svæðum þar sem þriðja kynslóð farsímakerfa verður innleidd.

Stefnt er að því að Síminn bjóði 3G þjónustu á höfuðborgarsvæðinu í haust og hefji að því loknu uppbyggingu á landsbyggðinni.

Í 3G-rekstrarleyfi Símans er gert ráð fyrir að eftir tvö og hálft ár muni kerfið ná að lágmarki til 60-80 prósenta íbúa landsbyggðarinnar. Útbreiðslan verður mismunandi eftir landshlutum og verður mest á Suðurlandi og Suðurnesjum, eða tæplega 80 prósent. Eftir fimm og hálft ár er gert ráð fyrir að kerfið nái til að lágmarki 75 prósent allra íbúa landsbyggðarinnar, að því er segir í tilkynningu Símans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×