Erlent

Stöðva byssukúlur á flugi

Í bíómyndinni The Matrix gátu persónur séð byssukúlur fljúga á hægum hraða og stöðvað þær á flugi. Nú getur bandaríski herinn gert það sama. Flugherinn hefur látið þróa fyrir sig háhraðamyndavél sem getur fylgt eftir byssukúlum á flugi.

Með þessari tækni segja sérfræðingar flughersins að megi þróa búnað sem stöðvar kúlur eða jafnvel vélbyssuskothríð áður en kúlurnar ná skotmarki sínu. Þá á líka að þróa brynjur fyrir hermenn þar sem háhraðamyndavélarnar ákvarða hvar kevlar-belgir blása upp á brynjunni millisekúndubroti áður en byssukúlan hittir skotmarkið.

Nýja tæknin byggir á því að linsa myndavélarinnar greinir innrauða geislun frá byssukúlunni og eltir hana. Nota má tæknina til að láta myndavélina elta hvað sem er sem ferðast jafn hratt eða hægar en byssukúla og þannig má til dæmis nýta hana í umferðareftirliti eða í augu vélmenna. Wired.com greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×