Skoðun

Hvert fara iðgjöldin?

„Hvar verður þú að vinna í sumar?" heyrist óma á göngum skólanna á vorin. Laun eru mikið rædd og krónutölur bornar saman. Það er auðvitað mismunandi hvernig ráðstafa á sumarhýrunni. Sumir ætla að nota hana í sólarlandaferð en aðrir til framfærslu næsta vetrar, en það á við um alla launamenn - óháð aldri.



Eðli málsins samkvæmt þá varir sumarvinna skólafólks oftast í tæpa þrjá mánuði eða frá júní fram í ágúst. Reglur margra stéttarfélaga gera hins vegar ekki ráð fyrir að þau hafi einhvern rétt til að nýta samningsbundna sjóði sem greitt er í fyrir þau.



Sumarstarfsfólk getur t.d. ekki sótt um úr starfsmenntasjóðum fyrir skólagjöldum eða bókakaupum. Þau hafa ekki rétt á að sækja í sjúkrasjóði til dæmis fyrir gleraugnakaupum eða sótt í orlofssjóði um sumarbústaði eða orlofsávísanir. Eini möguleikinn á að þau fái rétt er að þau hafi unnið í 6-12 mánuði samfleytt áður en sótt er í sjóðina.

Stéttarfélögin virðast bara taka við peningunum sumarstarfsmanna en tryggja þeim lítinn rétt! Það er því engin furða þótt þau spyrji þegar þau fá launaseðilinn - „af hverju er svona mikið tekið af mér?"

Höfundur er framkvæmdastjóri Félagsráðgjafafélags Íslands og skólafélagsráðgjafi.




Skoðun

Sjá meira


×