Innlent

18 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn 13 ára stúlku

MYND/Róbert

Karlmaður var í Héraðsdómi Suðurlands dæmdur í eins og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa þröngvað 13 ára stúlku með ofbeldi til annarra kynferðismaka en samræðis og fyrir að gefa henni áfengi þrátt fyrir að vita að hún væri undir lögaldri. Þá var hann dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu 900 þúsund krónur í skaðabætur.

Nauðgunin átti sér stað snemma á árinu og kemur fram í dómnum að maðurinn hafi káfað á brjóstum og kynfærum stúlkunnar innanklæða, setti hönd hennar á getnaðarlim sinn, sleikti brjóst hennar og kynfæri og setti fingur í leggöng hennar.

Maðurinn neitaði sök en í niðurstöðu dómsins kemur fram að að framburður stúlkunnar sé sérstaklega staðfastur og trúverðugur og fái stoð í framburði vitna, hegðun hennar og ástandi eftir atvikið og sérstaklega með hliðsjón af niðurstöðu DNA-rannsóknar á munnvatnssýni sem fundist hafi á brjósti stúlkunnar.

Segir dómurinn að í ljósi þessa sé ekki varhugavert að telja nægilega sannað að ákærði hafi gerst sekur um kynferðisbrotið. Hins vegar sé ósannað að ákærða hafi verið ljóst að stúlkan hafi verið yngri en 14 ára og voru brot hans því ekki heimfærð undir 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga sem kveður á um allt að 12 ára fangelsi fyrir kynferðismök við barn yngra en 14 ára.

Var hann því dæmdur í 18 mánaða fangelsi en til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald hans frá 30. janúar 2006 til 2. febrúar 2006. Auk skaðabóta var maðurinn dæmdur til að greiða yfir 800 þúsund krónur í skaðabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×