Körfubolti

LA Lakers lagði San Antonio

Lamar Odom var hársbreidd frá því að ná þrefaldri tvennu gegn San Antonio þegar hann skoraði 18 stig, hirti 11 fráköst og gaf 9 stoðsendingar
Lamar Odom var hársbreidd frá því að ná þrefaldri tvennu gegn San Antonio þegar hann skoraði 18 stig, hirti 11 fráköst og gaf 9 stoðsendingar NordicPhotos/GettyImages

Los Angeles Lakers vann í nótt góðan sigur á San Antonio Spurs 106-99 á heimavelli sínum Staples Center í Los Angeles, en lið Spurs hafði unnið fjóra leiki í röð. Kobe Bryant skoraði 34 stig fyrir Lakers og Lamar Odom skoraði 18 stig, hirti 11 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Manu Ginobili skoraði 23 stig af bekknum fyrir Spurs.

Portland lagði Toronto á útivelli 93-83 án Zach Randolph sem tók út leikbann. Jarrett Jack skoraði 22 stig fyrir Portland en Mo Peterson skoraði 23 stig fyrir Kanadamenn.

Phoenix valtaði yfir Charlotte 114-84 og vann þar með sinn tíunda leik í röð í deildinni. Amare Stoudemire skoraði 22 stig og hirti 12 fráköst fyrir Phoenix en Sean May setti persónulegt met með 26 stigum og 10 fráköstum hjá Charlotte.

Sacramento vann auðveldan sigur á Atlanta á heimavelli 117-92 en liðið hafði tapað fimm leikjum í röð áður en það landaði sigrinum í nótt. Brad Miller skoraði 16 stig fyrir Sacramento, en Salim Stoudamire skoraði 26 stig fyrir Atlanta, sem var án Joe Johnson í leiknum.

Loks vann Seattle sigur á Golden State 117-115 í bráðfjörugum leik í beinni á NBA TV sjónvarpsstöðinni, þar sem leikmenn Golden State fóru á kostum í fyrri hálfleik og skoruðu þar 72 stig - en urðu svo alveg bensínlausir á lokasprettinum og köstuðu frá sér sigrinum. Baron Davis skoraði 28 stig, gaf 13 stoðsendingar og hirti 9 fráköst fyrir Golden State, en Luke Ridnour skoraði 26 stig og gaf 9 stoðsendingar hjá Seattle sem vann þriðja leikinn í röð án aðalstjörnu sinnar Ray Allen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×