Saddam Hússein, fyrrverandi forseti Íraks, var í morgun dæmdur til dauða fyrir glæpi gegn mannkyninu. Samkvæmt dómsorði verður hann hengdur. Dómurinn í morgun var kveðinn upp í fyrsta kærumálinu gegn forsetanum en hann var ákærður fyrir aðild að morðum á 148 manns í bænum Dujail árið 1982. Sjíar eru þar í meirihluta.
Forsetinn fyrrverandi mun hafa fyrirskipað morðin eftir að reynt var að ráða hann af dögum. Sex til viðbótar voru ákærðir í málinu. Tveir voru dæmdir til dauða, þrír voru dæmdir í 15 ára fangelsi og einn sýknaður.
Viðbrögð við dómnum hafa verið blendin. Súnní múslimar, en það er trúflokkur Saddams, eru honum mótfallnir og gæti úrskurðurinn aukið á ofbeldi milli trúarflokka í Írak. Margir mannréttindahópar hafa líka sagt að réttarhöldin hafi verið gölluð og að laga þurfi dómstólinn fyrir næstu mál. Viðbrögð Saddams við dómnum voru einföld: "Allahu Akbar!" (Guð er mikilfenglegastur!) og "Lengi lifi þjóðin!".
Lögfræðingar Saddams sögðu réttarhaldið farsa og kölluðu dómstólinn ólöglegan svikadómstól skapaðan af Bandaríkjamönnum og þessvegna hefði réttarhaldið aldrei getað verið sanngjarnt.