Írska lággjaldaflugfélagið Ryanair spáir því að hagnaður félagsins á yfirstandandi rekstrarári, sem lýkur í mars á næsta ári, muni nema 335 milljónum evra, jafnvirði tæpra 30 milljarða króna. Þetta er 11 prósenta hækkun á milli ára.
Þetta er talsvert yfir fyrri spá félagsins sem hljóðaði upp á 5 til 10 prósent meiri hagnaði á rekstrarárinu en á síðasta ári.
Hagræðing í rekstri til að slá á verðhækkanir á eldsneytisverði og fjölgun farþega er meginástæða þess að flugfélagið spáir auknum hagnaði.
Ryanair ætlar að fjölga flugleiðum í Evrópu á næstunni og hefur pantað 32 Boeing 737-800 farþegaflugvélar vegna þessa. Kaupvirði þotanna nemur 1,2 milljörðum punda eða 158 milljörðum íslenskra króna.