Heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði á helstu fjármálamörkuðum í dag í kjölfar þess að George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, samþykkti að fara diplómatíska leið í viðræðum við Írana um kjarnorkuáætlun þeirra. Síðar í dag er að vænta upplýsinga um olíubirgðastöðu í Bandaríkjunum.
Verð á hráolíu, sem afhent verður í næsta mánuði, lækkaði um 52 sent á markaði í Bandaríkjunum og fór í 61,14 bandaríkjadal á tunnu. Þá lækkaði verð á Norðursjávarolíu í rafrænum viðskiptum á markaði í Bretlandi um 51 sent og fór í 61,66 dali á tunnu.