Viðskipti innlent

Hagnaður KEA minnkar milli ára

Kaupfélag Eyfirðinga (KEA) skilaði 133 milljóna króna hagnaði á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er tæplega 64,8 milljónum minni hagnaður en á sama tímabili í fyrra.

Í tilkynningu frá félaginu til Kauphallar Íslands kemur fram að hagnaður fyrir skatta hafi numið 167 milljónum króna. Hreinar rekstrartekjur námu 242 milljónum króna og rekstrargjöld 52 milljónum króna.

Þá veitti KEA styrki á tímabilinu fyrir 23 milljónir króna.

Heildareignir félagsins námu tæpum 5,2 milljörðum króna í lok júní og skuldir 823 milljónum króna á sama tíma. Bókfært eigið fé var rúmir 4,3 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 84 prósent.

Þá segir að í kjölfar stefnumótunarvinnu í upphafi tímabilsins hafi verið skerpt á hlutverki félagsins en starfi það nú sem fjárfestingarfélag sem vinni í þágu eigenda sinna að eflingu atvinnulífs og búsetuskilyrða á starfssvæði sínu.

Á aðalfundi félagsins í maí var ákveðið að breyta nafni félagsins í KEA svf. og greiða eigendum félagsins um 40 milljónir króna í arð sem kemur til greiðslu í október á þessu ári. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×