Viðskipti innlent

FL Group tapar á öðrum ársfjórðungi

Merki FL Group.
Merki FL Group.

FL Group hagnaðist um rúma 5,7 milljarða króna eftir skatta á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er tæpum 3,8 milljörðum krónum meira en á sama tíma í fyrra. Hagnaður fyrirtækisins fyrir skatta nam 6,3 milljörðum króna en hann var rúmir 2,3 milljarðar króna fyrir ári. FL Group tapaði 118 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi, sem er nokkur viðsnúningur frá sama tíma í fyrra þegar félagið skilaði rúmlega 1,9 milljarða króna hagnaði.

Í tilkynningu frá FL Group kemur fram að afkoma af fjárfestingastarfsemi fyrir skatta á fyrri helmingi ársins hafi numið 8,1 milljarði króna en hún var 2,6 milljarðar á sama tíma fyrir ári.

Haft er eftir Hannesi Smárasyni, forstjóra FL Group, að hann er ánægður með að geta kynnt góða afkomu á fyrri helmingi ársins, sérstaklega í ljósi afar mikils óróleika á fjármálamörkuðum á öðrum ársfjórðungi. Hafi gengi hlutabréfa almennt lækkað um 5 til 10 prósent á tímabilinu.

„Icelandair Group og dótturfélög þess eru að skila bestu afkomu í sögu félagsins sem endurspeglar áherslu okkar á arðsemi. Viðsnúningur á rekstri Sterling gengur í samræmi við áætlanir enda þótt sögulega hátt olíuverð og aukin samkeppni haldi áfram að vera áskorun," segir hann í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×