Viðskipti innlent

Icelandic Group kaupir frystisvið Delpierre

Alfesca og Icelandic Group skrifuðu síðdegis í gær undir formlegan samning um kaup Icelandic Group á frystisviði Delpierre (áður SIF France). Þetta er í samræmi við tilkynningu til Kauphallar þann 7. júlí s.l. þar sem fram kom að aðilar væru langt komnir með að ljúka samningum sín á milli. Heildarkaupverð er um 17 milljónir evra, rúmir 1,6 milljarðar króna.

Í tilkynningu til kauphallarinnar kemur fram að um er að ræða kaup á verksmiðjuhúsi, tækjum, áhöldum og veltufjármunum auk viðskiptasambanda. Heildarkaupverð er um 17 milljónir evra. Icelandic Group yfirtekur jafnframt samninga við starfsfólk verksmiðjunnar en í verksmiðjunni starfa um 300 manns.

Velta frystisviðs Delpierre var um 50 milljónir evra, jafnvirði rúmra 4,7 milljarða íslenskra króna,  á síðastliðnu rekstrarári og voru framleidd um 17.000 tonn af afurðum sem voru aðallega seldar á Frakklandsmarkaði.

Í tilkynningunni kemur fram að samningsaðilar hafi gert ráð fyrir að formleg yfirtaka Icelandic Group á verksmiðjunni fari fram á næstu vikum en salan er háð samþykki þar til bærra yfirvalda. Við það tækifæri munu félögin gera ítarlega grein fyrir áhrifum kaupanna á rekstur og efnahag félaganna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×