Greiningardeild Glitnis segir að útlit sé fyrir 0,8 prósenta hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) á milli mars og apríl. Íbúðaverð hafi áfram talsverð áhrif til hækkunar vísitölunnar ásamt matvöruverði sem hefur hækkað að undanförnu. Þá hefur eldsneytisverð einnig hækkað frá síðustu mælingu í kjölfar gengislækkunar og hækkandi heimsmarkaðsverðs.
Verðbólguþrýstingurinn eykst af þessum sökum, að sögn greiningardeild Glitnis. Óvissa spárinnar liggur fremur til hækkunar í ljósi gengislækkunar krónunnar og mikillar eftirspurnar í hagkerfinu. Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs þann 12. apríl næstkomandi kl. 09.00.
Verðbólgan mun mælast 5,1% gangi spáin eftir og eykst úr 4,5% frá fyrri mánuði, að sögn Glitnis. Verðbólgan heldur því áfram að vaxa og reynist fjarri efri þolmörkum í markmiði Seðlabankans (4 prósent) og hvergi nærri 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði hans. Um er að ræða 24 mánuðinn í röð sem verðbólga reynist umfram markmið bankans.
Þá telur bankinn verðbólguna aukast enn frekar á næstunni og segir að reikna megi með því að hún fari yfir 6 prósent í maí. Afar hæpið virðist að verðbólgan fari undir efri þolmörkin í bráð.
