Dagsbrún hf. hefur stofnað félagið 365 Media Scandinavia A/S í Danmörku. Í tilkynningu til Kauphallar Íslands segir að stofnun félagsins marki fyrstu skref félagsins í átt að útgáfu fríblaðs í líkingu við Fréttablaðið í Danmörku.
Félagið hefur áður lýst yfir áætlunum sínum um útrás á erlenda markaði með áherslu á Norðurlönd og Bretland. 365 Media Scandinavia A/S er ætlað að taka yfir vinnu innan Dagsbrúnar sem lögð hefur verið í undirbúning að stofnun nýs dagblaðs í Danmörku.
Næstu skref eru sögð vera að ráða stjórnendur til félagsins, en það verður gert á næstu dögum. Auk undirbúnings að stofnun nýs dagblaðs mun 365 Media Scandinavia A/S vinna stofnun fyrirtækis utan um dreifikerfi hins nýja dagblaðs.
„Vinnan við undirbúning að útgáfu nýs dagblaðs er komin það langt að rétt er að áframhald hennar verði innan sérstakt félag í Danmörku. Þetta félag mun jafnframt verða vettvangur okkar til að skoða önnur tækifæri á fjölmiðlamarkaði á Norðurlöndum," segir Gunnar Smári Egilsson, forstjóri félagsins.