Stærsta raftækjaverslun landsins opnar í nýju verslunarhúsnæði við Kauptún 1 í Garðabæ klukkan ellefu árdegis núna á laugardaginn. Verslunin ber heitið MAX og lofa forsvarsmenn hennar miklu vöruúrvali og lágmarksverði sem ýta muni undir samkeppni á markaðnum. Á sama stað er ný verslun IKEA.
Við hönnun verslunarinnar voru meðal annars fengnir ítalskir hönnuðir til að skapa henni „áhugaverða umgjörð eftir nýjustu straumum“, líkt og segir í tilkynningu, þar sem einnig kemur fram að í versluninni verði sértilboð á vörum í tilefni af opnuninni.