Virðingarleysi í umferðinni 5. september 2006 00:01 "Lífið er lotterí" segir í gömlum dægurlagatexta og má til sanns vegar færa. Það er þó heldur lakara að stundum virðist lífið líkast rússneskri rúllettu og jafnvel hættulegra að bregða sér akandi milli bæjarhluta eða landshluta en taka þátt í sjálfri rúllettunni alræmdu. Það virðist nærtækara að tala um umferðarómenningu á Íslandi en menningu og á þessu ári hefur alltof mörgum mannslífum verið fórnað í því hættuspili sem umferðin er frá degi til dags. Skýringa og úrbóta hefur verið leitað en þrátt fyrir mikla umræðu um varkárni, fræðslu og hámarkshraða halda ökumenn áfram að gerast sekir um hraðakstur, jafnvel ofsaakstur, og ógna þannig lífi og limum sínum og samferðamanna sinna. Rætt er um hækkaðan bílprófsaldur, breytingar á bifreiðum svo þær komist ekki hraðar en 90 km á klukkustund, aukna fræðslu og ýmislegt fleira. En umferðin heldur áfram að vera mannskæð og ástandið hefur sjaldan verið verra en nú. Sitt sýnist hverjum um ofangreindar leiðir til úrbóta. Margir leggjast gegn því að hækka bílprófsaldur úr 17 árum í 18 og vitna í reynslu nágrannaþjóða, þar sem ástandið er víst engu betra. Uppalendur vita þó að ungmenni taka út mikinn þroska frá ári til árs á milli tektar og tvítugs svo frá því sjónarmiði mætti ætla að það væri til bóta að fresta bílprófi um eitt ár. 90 km hámarkshraðahugmyndin, þ.e. að bifreiðir verði stilltar þannig að þær komist ekki hraðar, er auðvitað óraunsæ með öllu. Um vegina aka stórir jeppar, dragandi enn stærri hjólhýsi, stórar rútur og síðast en ekki síst afar stórir flutningabílar með enn stærri tengivagna. Ég er ekki tilbúin að vera föst aftan við slík fyrirbæri á þjóðvegum landsins, vitandi ekkert hvað er framundan. Bætt vegakerfi er auðvitað mikilvægur þáttur í bættri umferðarmenningu og kannski mætti setja hraðatakmörkun í bíla við 110-120 km hraða en það þarf að vera svigrúm til að taka fram úr þeim sem hægara aka. Það gæti líka verið til bóta að koma á laggirnar æfingasvæði þar sem ungir og óreyndir ökumenn gætu spreytt sig á hraðakstri við tiltölulega öruggar en þó mismunandi aðstæður og án þess að ógna lífi og limum annarra. Sú hugmynd hefur reyndar verið til umræðu árum saman og undarlegt að ekkert skuli hafa gerst enn. En ef til vill er aukin virðing og tillitsemi í þjóðfélaginu mikilvægasti þátturinn. Það er auðvitað ólíðandi að nokkrum manni skuli detta í hug að ógna lífi okkar hinna með hraðakstri á vegunum og þetta gerist aftur og aftur, oft með skelfilegum afleiðingum. Í slíku athæfi felst takmarkalaust virðingarleysi fyrir sjálfum sér og öðrum. Þetta virðingarleysi speglast reyndar víða í samfélaginu. Umgengni um náttúruna, jafnt í þéttbýli sem dreifbýli, hefur hrakað á síðustu árum og nánast daglega sé ég rusli fleygt út úr bíl á ferð, svo lítið dæmi sé tekið. Mér er með öllu fyrirmunað að skilja hugsanaganginn þar á bak við. Kannski er þetta aukna virðingarleysi afleiðing af aukinni efnishyggju síðustu ára. Ekkert skiptir máli því það er alltaf hægt að kaupa nýtt og betra. En það er ekki hægt að kaupa nýja og betri náttúru ef þeirri sem við búum við hefur verið spillt og það er enn síður hægt að kaupa nýtt og betra líf ef við fórnum því sem okkur er gefið í upphafi. Virðingarleysi fyrir sjálfum sér og öðrum birtist allsstaðar; í umferðinni, í biðröðum, á veitingahúsum, úti í móa, í samskiptum fólks á ólíkum vettvangi. Vissulega er meirihluti fólks kurteis, tillitsamur og aldeilis ágætur í samskiptum. En hinir eru of margir sem virðast telja sig öðrum æðri og þurfi því ekki að taka tillit til eins né neins. Þetta viðhorf er mishættulegt og kannski hættulegast í umferðinni. Ég vil ekki sætta mig við að fjölskylda mín og vinir séu í lífshættu nánast dag hvern vegna þess eins að þeir eiga erindi milli bæjarhluta eða landshluta. Það verður að bæta og auka virðingu fólks fyrir sjálfum sér og öðrum og auka tillitsemi, jafnt í umferðinni sem annars staðar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Inga Rósa Þórðardóttir Skoðanir Mest lesið RÚV og litla vandamálið Ásgeir Sigurðsson Skoðun ESB aðild eða fylki í USA, eða bara gamla Ísland og blessuð krónan? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Það tapa allir á orkuskortinum Guðríður Eldey Arnardóttir Skoðun Undirgefni, trúleysi og tómarúm Einar Baldvin Árnason Skoðun Reistu hamingjunni heimili Árni Sigurðsson Skoðun Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun Sertral eða sálfræðimeðferð Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Aðför að réttindum verkafólks Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun
"Lífið er lotterí" segir í gömlum dægurlagatexta og má til sanns vegar færa. Það er þó heldur lakara að stundum virðist lífið líkast rússneskri rúllettu og jafnvel hættulegra að bregða sér akandi milli bæjarhluta eða landshluta en taka þátt í sjálfri rúllettunni alræmdu. Það virðist nærtækara að tala um umferðarómenningu á Íslandi en menningu og á þessu ári hefur alltof mörgum mannslífum verið fórnað í því hættuspili sem umferðin er frá degi til dags. Skýringa og úrbóta hefur verið leitað en þrátt fyrir mikla umræðu um varkárni, fræðslu og hámarkshraða halda ökumenn áfram að gerast sekir um hraðakstur, jafnvel ofsaakstur, og ógna þannig lífi og limum sínum og samferðamanna sinna. Rætt er um hækkaðan bílprófsaldur, breytingar á bifreiðum svo þær komist ekki hraðar en 90 km á klukkustund, aukna fræðslu og ýmislegt fleira. En umferðin heldur áfram að vera mannskæð og ástandið hefur sjaldan verið verra en nú. Sitt sýnist hverjum um ofangreindar leiðir til úrbóta. Margir leggjast gegn því að hækka bílprófsaldur úr 17 árum í 18 og vitna í reynslu nágrannaþjóða, þar sem ástandið er víst engu betra. Uppalendur vita þó að ungmenni taka út mikinn þroska frá ári til árs á milli tektar og tvítugs svo frá því sjónarmiði mætti ætla að það væri til bóta að fresta bílprófi um eitt ár. 90 km hámarkshraðahugmyndin, þ.e. að bifreiðir verði stilltar þannig að þær komist ekki hraðar, er auðvitað óraunsæ með öllu. Um vegina aka stórir jeppar, dragandi enn stærri hjólhýsi, stórar rútur og síðast en ekki síst afar stórir flutningabílar með enn stærri tengivagna. Ég er ekki tilbúin að vera föst aftan við slík fyrirbæri á þjóðvegum landsins, vitandi ekkert hvað er framundan. Bætt vegakerfi er auðvitað mikilvægur þáttur í bættri umferðarmenningu og kannski mætti setja hraðatakmörkun í bíla við 110-120 km hraða en það þarf að vera svigrúm til að taka fram úr þeim sem hægara aka. Það gæti líka verið til bóta að koma á laggirnar æfingasvæði þar sem ungir og óreyndir ökumenn gætu spreytt sig á hraðakstri við tiltölulega öruggar en þó mismunandi aðstæður og án þess að ógna lífi og limum annarra. Sú hugmynd hefur reyndar verið til umræðu árum saman og undarlegt að ekkert skuli hafa gerst enn. En ef til vill er aukin virðing og tillitsemi í þjóðfélaginu mikilvægasti þátturinn. Það er auðvitað ólíðandi að nokkrum manni skuli detta í hug að ógna lífi okkar hinna með hraðakstri á vegunum og þetta gerist aftur og aftur, oft með skelfilegum afleiðingum. Í slíku athæfi felst takmarkalaust virðingarleysi fyrir sjálfum sér og öðrum. Þetta virðingarleysi speglast reyndar víða í samfélaginu. Umgengni um náttúruna, jafnt í þéttbýli sem dreifbýli, hefur hrakað á síðustu árum og nánast daglega sé ég rusli fleygt út úr bíl á ferð, svo lítið dæmi sé tekið. Mér er með öllu fyrirmunað að skilja hugsanaganginn þar á bak við. Kannski er þetta aukna virðingarleysi afleiðing af aukinni efnishyggju síðustu ára. Ekkert skiptir máli því það er alltaf hægt að kaupa nýtt og betra. En það er ekki hægt að kaupa nýja og betri náttúru ef þeirri sem við búum við hefur verið spillt og það er enn síður hægt að kaupa nýtt og betra líf ef við fórnum því sem okkur er gefið í upphafi. Virðingarleysi fyrir sjálfum sér og öðrum birtist allsstaðar; í umferðinni, í biðröðum, á veitingahúsum, úti í móa, í samskiptum fólks á ólíkum vettvangi. Vissulega er meirihluti fólks kurteis, tillitsamur og aldeilis ágætur í samskiptum. En hinir eru of margir sem virðast telja sig öðrum æðri og þurfi því ekki að taka tillit til eins né neins. Þetta viðhorf er mishættulegt og kannski hættulegast í umferðinni. Ég vil ekki sætta mig við að fjölskylda mín og vinir séu í lífshættu nánast dag hvern vegna þess eins að þeir eiga erindi milli bæjarhluta eða landshluta. Það verður að bæta og auka virðingu fólks fyrir sjálfum sér og öðrum og auka tillitsemi, jafnt í umferðinni sem annars staðar.