Innlent

Fáir útlendingar á bótum

Erlendir verkamenn Erlendir starfsmenn, sem fá tímabundið atvinnuleyfi hjá ákveðnu fyrirtæki, geta ekki fengið atvinnuleysisbætur, missi þeir vinnuna.
Erlendir verkamenn Erlendir starfsmenn, sem fá tímabundið atvinnuleyfi hjá ákveðnu fyrirtæki, geta ekki fengið atvinnuleysisbætur, missi þeir vinnuna.

Lítið er um að erlendir starfsmenn á Íslandi taki sér atvinnuleysisbætur, þrátt fyrir að réttur þeirra til bóta sé sá sami og réttur Íslendinga, telji þeir fram á landinu. Sama gildir um fæðingarorlofsgreiðslur.

Atvinnuleysi meðal útlendinga er minna en meðal Íslendinga sjálfra, segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar. Flestir útlendingar koma hingað til þess að vinna.

Til að hljóta 25 prósent atvinnuleysisbætur þarf viðkomandi að hafa unnið í þrjá mánuði samfleytt á íslenskum vinnumarkaði. Starfsmenn frá ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins geta þó yfirfært rétt sinn frá heimalandinu til að hljóta hundrað prósent bætur strax eftir þrjá mánuði, að sögn Jóngeirs H. Hlinasonar, deildarstjóra atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun.

Þeir sem eru með bundið atvinnuleyfi hafa ekki atvinnubótarétt, segir Gissur. Þeir sem eru ráðnir tímabundið til starfa við ákveðið fyrirtæki, líkt og tíðkast hjá Impregilo og Bechtel fyrir austan, hafa því ekki rétt til að sækja um bætur. Það þarf grænt kort til að hljóta atvinnubótarétt.

Það er bara bull þegar því er haldið fram að útlendingar komi hingað og lifi á bótum, segir Gissur. Það er engin tölfræði sem styður það.

Almenn skilyrði til fæðingarorlofsgreiðslna á Íslandi er að hafa verið í að minnsta kosti 25 prósent starfi á íslenskum vinnumarkaði seinustu sex mánuði fyrir fæðingu barnsins. Lágmarksgreiðsla til foreldris í 25 til 49 prósenta starfi er 70.543 krónur á mánuði. Þessi sömu skilyrði gilda um erlenda starfsmenn jafnt og Íslendinga.

Hallveig Thordarson, deildarstjóri fæðingarorlofsdeildar hjá Tryggingastofnun ríkisins, segir að eitthvað hafi verið um umsóknir frá erlendum starfsmönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×