Innlent

Drífa Kristín skipuð skrif­stofu­stjóri á skrif­stofu löggæslumála

Atli Ísleifsson skrifar
Drífa Kristín Sigurðardóttir.
Drífa Kristín Sigurðardóttir. Stjr

Dómsmálaráðherra hefur skipað Drífu Kristínu Sigurðardóttur til að gegna embætti skrifstofustjóra á skrifstofu löggæslumála í dómsmálaráðuneytinu.

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að skrifstofa löggæslumála fari með málaflokka lögreglu, landhelgisgæslu og almannavarna, auk vopnamála og annarra tengdra mála.

„Drífa Kristín lauk Cand.jur. frá Háskóla Íslands árið 2004 og LL.M. frá Columbia Law School árið 2012. Hún hlaut leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 2006.

Drífa Kristín var staðgengill skrifstofustjóra skrifstofu almanna- og réttaröryggis og teymisstjóri löggæsluteymis á sömu skrifstofu á árunum 2023-2025. Áður starfaði hún sem lögfræðingur á skrifstofu almanna- og réttaröryggis frá árinu 2020-2023 þar sem hún bar ábyrgð meðal annars ábyrgð á málefnum löggæslu. Á árunum 2017-2020 starfaði Drífa Kristín sem lögfræðingur nefndar um eftirlit með lögreglu. Áður starfaði hún sem lögmaður á fyrirtækjasviði Landsbankans, fyrst frá 2004-2011 og aftur frá 2012-2016. Drífa Kristín hefur verið í varastjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins frá árinu 2024, var í stjórn Matís ohf. 2018-2024, varastjórn Landsbréfa 2019-2020 og í háskólaráði Háskólans í Reykjavík 2014-2016. Þá hefur hún setið í ýmsum nefndum og ráðum.

Embætti skrifstofustjóra á skrifstofu löggæslumála var auglýst laust til umsóknar þann 27. ágúst sl. og bárust alls 16 umsóknir. Einn umsækjandi dró umsókn sína til baka. Ráðherra skipaði þriggja manna nefnd til að meta hæfni umsækjenda um embættið, sbr. 19. gr. laga nr. 15/2011 um Stjórnarráð Íslands.

Hæfnisnefndin fór yfir umsóknir allra umsækjenda með tilliti til menntunar- og hæfniskrafna. Fjórir umsækjendur voru taldir uppfylla almenn hæfnisskilyrði til að gegna embættinu og voru boðaðir í viðtal hjá nefndinni. Að loknu heildarmati á gögnum málsins var það mat nefndarinnar að Drífa Kristín Sigurðardóttir væri hæfust til að gegna embætti skrifstofustjóra,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×