Einn stærsti fjármálavefur landsins var opnaður á mánudag í síðustu viku á vefslóðinni M5.is. Vefurinn hefur verið lengi í þróun, að sögn fyrirtækisins Vefmiðlunar ehf. sem á og rekur vefinn.
Á vefnum er að finna ýmiss gögn um hlutafélög, gjaldmiðla ásamt ítarlegum sögulegum gögnum. Þar má meðal annars bera saman verðþróun margra félaga í einu grafi, skoða tölur úr milli- eða aðaluppgjöri, kennitölur og fylgjast með fréttum úr fjármálalífinu. Þá eiga innlendar verðbréfavísitölur sinn stað á vefnum þar sem skoða má þróun þeirra aftur í tímann svo eitthvað sé nefnt.