Vöruinnflutningur í maí var 35,7 milljarða króna virði samkvæmt bráðabirgðatölum fjármálaráðuneytisins um innheimtu virðisaukaskatts. Tólf mánaða aukning innflutnings, að skipum og flugvélum undanskildum, nam rúmum 23 prósentum.
Fram kemur í Vefriti fjármálaráðuneytisins að helstu drifkraftar innflutnings hafi sem fyrr verið innfluttar hrá- og rekstrarvörur ásamt fjárfestingarvörum. Aukningu í þeim flokkum megi að mestu rekja til stóriðjuframkvæmda.
Þá hafi nokkur aukning orðið í innflutningi á neysluvörum milli mánaða. Hins vegar hafi hægst á innflutningi bifreiða.