Launagreiðslur, auk bónusa og fríðinda, til dr. Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, námu 63,3 milljónum króna á síðasta ári, rúmri einni milljón Bandaríkjadala.
Hækkuðu þau um meira en helming frá árinu 2004 en þessar upplýsingar koma fram í ársskýrslu deCode genetics. Hækkun milli ára er að miklu leyti komin til vegna 300 þúsund dala bónusgreiðslu.
Kári átti 5,6 prósenta hlut í deCode Genetics um miðjan febrúar, sem samsvarar tæpum 1,8 milljörðum króna að markaðsvirði. Kári er fjórði stærsti hluthafinn í deCode á eftir T. Rowe Price Associates, sem er stærsti hluthafinn með 12,6 prósent, AXA Financial (6,6 prósent) og SAPAC Corporation (5,9 prósent).