Sport

Hann er "úr hverfinu"

Artest og Stern takast hér í hendur fyrir leik Indiana og Miami í nótt
Artest og Stern takast hér í hendur fyrir leik Indiana og Miami í nótt NordicPhotos/GettyImages

Vandræðagemlingurinn Ron Artest hjá Indiana Pacers hitti David Stern, framkvæmdastjóra NBA deildarinnar að máli fyrir leik Indiana og Miami í nótt og ekki var annað að sjá en að vel færi á með þeim. Stern dæmdi Artest sem kunnugt er í 73 leikja bann í fyrra fyrir slagsmál.

"Ron er frábær leikmaður og ég vona svo sannarlega að hann komist í stjörnuliðið í vetur," sagði hinn diplómatíski Stern og Artest virtist jafn hrifinn af framkvæmdastjóranum.

"Hann er svalur - ég held að hann komi "úr hverfinu" (the hood)," sagði Artest án þess að depla auga, en Ron Artest ólst sjálfur upp í fátækrahverfi við erfiðar aðstæður.

Ekki verður sama sagan sögð um David Stern, sem er milljarðamæringur og hann kannaðist ekki við lýsingu Artest. "Ég hugsa að konan mín og börn myndu nú ekki kannast við það ef þau væru spurð," sagði Stern vandræðalega, þegar hann var spurður hvort þetta væri rétt.

Artest hefur spilað vel í tveimur fyrstu leikjum Indiana á leiktíðinni og greinilegt er að hann hefur ekki setið auðum höndum í leikbanninu, því hann er búinn að bæta á sig um tíu kílóum af vöðvum. Þetta sást greinilega í leiknum gegn Miami í nótt, þar sem hann skiptist á að gera bæði bakvörðum og framherjum Miami lífið leitt í vörninni með styrk sínum og snerpu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×