Sport

Wenger: Á ég að fara í spilavítið?

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal segir að Chelsea sé að borga tvöfalt markaðsverð á þeim leikmönnum sem þeir eru að fá til sín. Wenger hefur verið undir pressu undanfarna daga frá stuðningsmönnum sem vilja að stjórinn kaupi nýja leikmenn á meðan ríku félögin Real Madrid og Chelsea eru að hrifsa hvern leikmanninn á fætur öðrum sem Wenger ætlaði að kaupa. Franski stjórinn segir að honum detti ekki í hug að láta þvinga sig út á leikmannamarkaðinn. "Ég ætla ekki að kaupa leikmann bara í þeim tilgangi að kaupa einhvern. Hvað á ég að gera? Fara með leikmannasjóðinn minn í spilavítið?" sagði Wenger og fór hreint á kostum í viðtali í breskum fjölmiðlum í dag. Chelsea keypti Shaun Wright-Phillips frá Man City á 21 milljón punda um daginn þegar Wenger hugleiddi að bjóða í leikmanninn. Þá keypti Real Madrid sóknarmann sem Wenger reyndi að fá, Julian Baptista fyrir rúmar 14 milljónir punda. "Ég vil ekki meina að ég sé öfundsjúkur. Svona er þetta bara. Verð á leikmanni tvöfaldast þegar Chelsea blandast í málið. Haldið þið virkilega að Wright-Phillips hefði kostað 21 milljón punda ef Chelsea hefði ekki ætlað að fá hann? Við verðum að horfa raunsætt á þetta í hreinskilni sagt. Hann hefði kostað 10 milljónir að öðru leyti." sagði Wenger sem hefur aðeins keypt einn leikmann, Alexander Hleb frá Stuttgart fyrir 10 milljónir punda á meðan Patrick Vieira var seldur til Juventus fyrir 13.7 milljónir punda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×