Fótbolti

Niko marka­hæstur og Gylfi stoð­sendinga­hæstur í Sam­bands­deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikolaj Hansen og Gylfi Þór Sigurðsson hafa verið í miklu stuði í Evrópuleikjum Víkings í sumar.
Nikolaj Hansen og Gylfi Þór Sigurðsson hafa verið í miklu stuði í Evrópuleikjum Víkings í sumar. Vísir/Anton Brink

Nikolaj Hansen skoraði tvö mörk og Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp tvö þegar Víkingar komust áfram í þriðju umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar í gær.

Víkingur vann 4-2 sigur á albanska félaginu Vllaznia í framlengdum leik en Hansen tryggði Víkingum framlengingu með marki eftir einmitt stoðsendingu frá Gylfa.

Hansen er þar með kominn með sex mörk í fjórum leikjum í keppninni í ár og er markahæstur allra leikmanna hennar.

Hansen hefur skorað einu marki meira en Norðmaðurinn Sander Svendsen sem spilar með öðru Víkingsliði, nefnilega Viking í Noregi.

Diogo Pinto hjá Ljubljana í Slóveníu og Pavel Savitskiy hjá Neman í Hvíta- Rússlandi hafa síðan skorað fjögur mörk hvor.

Gylfi er nú búinn að gefa fjórar stoðsendingar í Sambandsdeildinni í sumar og hann er líka á toppnum það er í flestum stoðsendingum.

Gylfi hefur lagt upp einu marki fleira en næstu menn sem eru þeir Shua hjá Beitar Jerusalem, Frederiksberg hjá Klaksvik, Leon hjá Santa Coloma, Ring hjá HJK, Ilicic hjá Koper og Imaz hjá Jagiellonia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×