Sport

Meiðsli hjá Fylki en engin hjá Val

Valsmenn eiga ekki í neinum meiðslavandræðum fyrir undanúrslitaleikinn gegn Fylki í VISA bikarkeppninni í kvöld. Willum Þór Þórsson þjálfari Vals segir tíma kominn til að hið fornfræga bikarfélag Valur láti á sér bera í keppninni. "Valur var hér á árum áður mikið bikarlið þannig að þetta er mjög skemmtilegt fyrir okkur." sagði Willum á fréttamannafundi KSÍ á þriðjudag. Þorlákur Árnason þjálfari Fylkis segir alla þá menn sem hafa verið að spila í undanförnum leikjum séu leikfærir. "Ég ætla nú ekki að fara að telja upp alla þá menn sem eiga í langtímameiðslum hjá okkur. " sagði Þorlákur í léttum dúr á fundinum. "3-1 tapleikurinn gegn Val í deildinni um daginn var nokkurs konar forleikur að þessum leik og það verður spennandi að sjá hvernig menn vinna úr því." sagði Þorlákur en Fylkir hefur tapað báðum leikjunum gegn Val í deildinni í sumar. Haukur Ingi Guðnason, Ólafur Stígsson og Finnur Kolbeins eru allir frá til lengri tíma vegna meiðsla. Haukur Ingi er þó farinn að æfa að nýju eftir að hafa verið frá í á annað ár með vegna slitins krossbands og læknamistaka. Leikurinn hefst kl. 19:40 á Laugardalsvelli í kvöld og verður hægt að fylgjast með beinni útsendingu á Boltavaktinni hér á Vísi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×