Sport

Mótlæti hjá ÍBV í Færeyjum

Eyjamenn eru úr leik eftir 2-1 tap fyrir færeyska liðinu B36 í Þórshöfn í gær en liðin gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leiknum. Ísland tapaði því fyrstu viðureign sinni gegn Færeyjum í Evrópukeppni félagsliða en Ísland hefur aldrei tapað fyrir Færeyjum í A-landsleik. Fyrrum leikmaður Eyjaliðsins, Alan Mörköre, nýtti sér varnarmistök ÍBV og kom færeyska liðinu yfir strax á fyrstu mínútu og eftir það var á brattann að sækja. Ian Jeffs jafnaði þó þremur mínútum fyrir hálfleik með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu. ÍBV-liðinu tókst hins vegar ekki að skora markið sem hefði komið liðinu áfram og þess í stað skoruðu leikmenn B36 sigurmarkið á 68. mínútu sem var sjálfsmark Einars Hlöðvers Sigurðssonar. Í kjölfarið voru tveir leikmenn ÍBV reknir út af, fyrst Ian Jeffs á 75. mínútu fyrir að slá til mótherja og svo Pétur Óskar Sigurðsson á 84. mínútu eftir átök við varnarmann færeyska liðsins. ÍBV getur því farið að einbeita sér að því að berjast fyrir sæti sínu í deildinni eftir að hafa dottið út úr bæði bikarnum og Evrópukeppninni á einni viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×