Viðskipti innlent

Á sinn þátt í verðsprengingunni

MYND/Vísir
Sérfræðingar á íbúðamarkaði telja að lánasamningar Íbúðalánasjóðs við bankana, um að þeir geti endurlánað ríkistryggða peninga og sloppið við alla áhættu, eigi sinn þátt í verðsprengingunni á íbúðamarkaðnum. Eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi verður ekki annað ráðið af viðauka við lánasamning Íbúðalánasjóðs við bankana, og öðrum gögnum sem fréttastofan hefur undir höndum, en að bankarnir leppi í raun lánveitingar Íbúðalánasjóðs til einstaklinga sem fá lánað umfram þær heimildir sem sjóðurinn hefur samkvæmt lögum. Heimildin nemur tæpum 16 milljónum. Með öðrum orðum getur húsbyggjandi fengið tæpar 16 milljónir lánaðar hjá Íbúðalánasjóði en þær tæpar tíu milljónir sem vantar upp á 25 milljóna markið getur hann svo fengið lánaðar hjá banka, sem í raun er að endurlána peninga frá Íbúðalánasjóðnum sjálfum, en það eru ríkistryggðir peningar. Sjóðurinn, og þar með almenningur í landinu, tekur hins vegar sjálfur á sig áföll af vanskilum, eða ef íbúðaverð lækkar niður fyrir veðheimildir. Sérfræðingar benda á að þessi ríkistryggða leikflétta geti þýtt það að bankarnir sýni ekki sama aðhald og þegar þeir eru að lána eigið fé og það, með öðru, eigi sinn þátt í að skrúfa upp íbúðaverðið. Ekki náðist í Árna Magnússon félagsmálaráðherar fyrir fréttir og Pétur Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, vildi lítið tjá sig þar sem hann hafi ekki séð gögn málsins, nema hvað þetta virtist klárlega ganga á skjön við vilja stjórnvalda um rekstur Íbúðalánasjóðs.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×